Góðir hjólreiðamenn og aðrir vegfarendur.

Góðir reiðhjólamenn og aðrir vegfarendur.

Því miður virðist reiðhjólafólk á Íslandi vera í þeirri stöðu að vera hálfgerðir gestir í umferðinni.

Ekki er almennt gert ráð fyrir þeim hvorki á akreinum eða á gangstéttum.

Ég sem Íslendingur dauðskammast mín fyrir þá aðstöðu og þær umferðarreglur sem hjólreiðafólki er almennt boðið upp á og dauðvorkenni t.d. ferðamönnum sem koma hingað til lands á reiðhjólum og sérstaklega er hræðilegt að horfa upp á það þegar þeir reyna að hjóla á 80-90 km/klst götum með börnin sín í þessum annars snilldar vögnum innan um trukka og misviturt fólk sem er hugsanlega í formúlu 1 fílingi, að mála sig eða á kafi í símaskilaboðum undir stýri.

Ekki færi ég með börnin mín út í þessar aðstæður og ekki dytti mér í hug að hjóla í umferðinni. Stóru grettistaki þarf að lyfta til að koma reiðhjólafólki í viðunandi aðstæður. Í villta vestrinu voru fangar notaðir þegar þurfti að gera átak í lestarsamgöngum. Getum við ekki gert sambærilegt átak í reiðhjólasamgöngum og sparað í leiðinni mikla fjármuni í fangelsisbyggingum?

Einhvern tíman fyrir löngu síðan heyrði ég að um 30% ökumanna væri í raun ekki hæfir sem ökumenn en þeir héldu réttindum sínum vegna mannréttindarsjónarmiða.

Ég miða minn akstur við að hugsanlega sé einhver af þessum 30% nærri en mig grunar og myndi ég til dæmis ekki ana út á götu hvorki gangandi né hjólandi eins og þó sífellt stækkandi hópur þessara vegfaranda gerir í þeirri vissu að það eigi réttinn.

Nýlegar tölur um alvarleg slys á gangandi og hjólreiðafólki sýna margföldun á síðustu árum.

Hér þurfa allir að leggjast á eitt og sýna tillitssemi.

Gangandi og hjólandi eru ekki þar undanskyldir.

Þeir verða einnig að hafa í huga að um 30% ökumanna eru líklega óhæfir til aksturs á einhverjum tímapunkti.

Algjörlega er nauðsynlegt að vera viss um að 1 af 70 prósentunum sé undir stýri í bílnum sem þú ert að vona að stoppi fyrir þér.

Af hverju að taka sjensinn á ævilöngum örkumlum fyrir nokkurra sekundna gjörning sem gerður er í þeirri vissu að hann eigi að stoppa fyrir þér.

Kannski er viðkomandi að hugsa um eitthvað allt annað en aksturinn og keyrir yfir þig þó svo hann hafi ekki réttinn sín megin.

Keyri einhver yfir þig er sennilega um einsskonar óviljaverk að ræða. Kannski hélt viðkomandi að það væri nú í lagi að tala aðeins í farsímann eða fara aðeins yfir leyfilegan hámarkshraða.

Það er þó sjaldnast um óviljaverk að ræða þegar ökumenn ákveða að þeir þurfi ekki að fara að settum reglum – svokölluðum umferðarreglum kannski bara vegna þess að engin lögregla er sjáanleg.

Börnin okkar eru snögg að taka rangar ákvarðanir. Nýji eða gamli boltinn gæti hafa skoppað of nærri götunni. Nýja hjólið er kannski ekki að hlýða nýja vegfarandanum. Eru allir viðbúnir að stoppa án fyrirvara? 

Börnin eru ekki heldur alltaf mjög sjáanleg. Til dæmis þegar þau skjótast milli kyrrstæðra bíla í hita leiksins og taka ekki eftir akbrautinni eða bílnum sem er að koma.

Hugsanlega er myrkur. Hugsanlega er endurskinsmerkið ekki í réttri notkun ofan í skúffu eða ofan í vasa.

Einnig þurfa forsendur við hönnun umferðarmannvirkja að taka til allra þátta.

Nýlegir upphækkunargjörningar varðandi gangandi og hjólandi umferð eru skref í rétta átt en taka þó ekki til þess að sú umferð þarf einnig sama aðhald og sú akandi.

Í starfi mínu sem atvinnubílstjóri hef ég orðið töluvert mikið var við að gangandi og hjólandi vegfarendur ani hugsunarlaust út á akrein þar sem þessar upphækkanir eru og er það miður. Verði hönnun umferðarmannvirkja til þess að einhverjir hlutar vegfarenda hætti að sýna nauðsynlega tillitsemi og aðgæslu varðandi aðra hluta umferðar er betra heima setið en af stað farið.

Þess háttar hönnun á hugsanlega einhvern þátt í því að slysum á þeim flokki sem mannvirkin eru gerð fyrir það er að segja gangandi og hjólandi – margfaldast á hverju ári eins og kom fram í fréttum nýlega. 

Hugsanlega er eingöngu hugsanaleysi um að kenna en ég persónulega myndi telja að einhversskonar þröskuldar eða grindur verði einnig að vera fyrir gangandi og hjólandi hluta umferarinnar þar sem ferli þessara umferðarforma skarast sé vilji til að ná slysatíðni nær viðunandi horfi sem hlýtur að vera núll – það er að segja algjört slysaleysi.

Grundvöllur góðrar umferðarmenningar er tillitssemi og aftur tillitssemi – og eru gangandi og hjólandi ekki undanskyldir.

B Kristinsson.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *