Fyrstu vorboðar ársins.

Fyrstu hjólreiðahrottar ársins sáust í vikunni á Höfuðborgarsvæðinu núna í fyrstu viku febrúar og má því segja að vorið sé á næsta leiti.

Hinir svokölluðu hjólreiðahrottar sáust fyrst fljótlega eftir fjármálahrunið árið 2008. Hjólreiðahrottarnir eru yfirleitt skærlitir og sjást best þegar þeir stunda lágflug eftir helstu umferðaræðum.

Hjólreiðahrottarnir eru af furðufuglaætt og hefur tegundin sem er á stærð við meðalmann verið í lægð undanfarin misseri þrátt fyrir þrengingar gatna, upphækkanir og almennar hindranir almennrar umferðar þar sem hrottarnir hafa stundað stjórnlaust lágflug sitt. Hafa sjúkraflutningamenn haft í nógu að snúast á degi hverjum og er nú áformað að lækka hraða almennrar umferðar vestan Kringlumýrarbrautar um 10 KM/klst til að reyna að viðhalda stofninum.

Hefðbundinn Hrotti

Hjólreiðahrottum þykir líkja til venjulegs reiðhjólafólks en eru þó auðþekktir á skæru litunum, stjórnlausu lágfluginu óháð almennri umferð og bendingum til almennrar umferðar sem þykja líkjast miður kurteislegum merkjasendingum óharðnaðra ungmenna.