Vorboðarnir ljúfu virðast horfnir!!!

Hinir svokölluðu hjólreiðahrottar sem sáust fyrst fljótlega eftir fjármálahrunið árið 2008 virðast vera horfnir af götum Höfuðborgarsvæðisins.

Hvarf Hjólreiðahrottanna er talið tengjast rykmengun frá ósópuðu gatnakerfinu og þeim sementslungum sem fylgja innöndun óþrifnaðarins auk tíðra fallslysa á hálum ósópuðum sandbornum hjólreiðastígunum.
Einnig er talið að hættuleg og villandi hönnun umferðarmannvirkja eigi stóran þátt í hvarfi hins týpíska hjólreiðahrotta enda nær ómögulegt fyrir meðal akandi eldriborgara og símglápabílstjóra að varast stjórnlausa hrottana á  flestum nýbyggðu sérhönnuðu gatnamótunum.

Hjólreiðahrottarnir voru yfirleitt skærlitir og sáust best þegar þeir stunduðu stjórnlaust lágflug eftir helstu umferðaræðum.

Hefðbundinn Hrotti

Hjólreiðahrottum þótti líkja til venjulegs reiðhjólafólks en voru þó auðþekktir á skæru litunum, stjórnlausu lágfluginu óháð almennri umferð og bendingum til almennrar umferðar sem þótti líkjast miður kurteislegum merkjasendingum óharðnaðra ungmenna.

Verði einhver var við eintak af vorboðanum ljúfa – hinum kærkomna hjólreiðahrotta er viðkomandi beðinn að taka mynd og senda á ritstjórn.